laugardagur, mars 31, 2007


Ég var hálfsvekkt út í sjálfa mig seint í gærkvöldi þegar ég uppgötvaði það að ég missti af þættinum american inventor..ég sá nefnilega fyrsta þáttinn óvart með huldu og var búin að hlakka til að sjá meira. Skil bara ekki hvað það er endalaust hægt að finna upp á rugli til að sýna í sjónvarpi. Við sátum þarna tvær og göptum, vissum í raun ekki hvort við ættum að hlæja eða gráta eða bara yfirhöfuð hvernig viðbrögð við ættum að sýna..

Þarna var til dæmis fjölskyldufaðir sem ég í augnablikinu man ekki hvað heitir. Hann var afar stoltur af sjálfum sér, búinn að veðsetja húsið fyrir fullt af pening og ég veit ekki hvað en var þó viss um að uppfinning hans væri sú allra allra besta. Kvaðst hann mjög inspíreraður af fjölskyldunni, fallegu konunni og börnunum og hafði mörg falleg orð um þau hálfklökkur. Eftir að hafa lofsamað bandaríska fósturjörð og uppfinningu sína sem myndi vera þarfaþing í framtíðinni, eða breakthrough in history, svipti hann hulu af undraverðri uppfinningunni.....SKÓFLU!
(Ég og hulda tókum andköf í sófanum)
Þögnin var þrúgandi en dómararnir ákváðu að gefa honum séns sem betur fer því ég hlakka svo sannarlega til þegar ég get farið í hagkaup og keypt mér skóflu, enda aldrei séð annað eins undratæki á ævinni!!

mánudagur, mars 26, 2007

yes i´m gonna be a star

allavega gyða á daewoo því ég náði í ökuskírteinið mitt áðan!!! Ég stóð reyndar í þeirri meiningu að ég væri orðin lögleg á götum Íslands frá og með 27.mars en raunin var önnur.
Eftir langa bið í símanum þá svaraði vinsamleg rödd á skiptborði lögreglustöðvarinnar. Ég bar upp erindið (hvar á ég að sækja skírteinið á morgun?) og hún svaraði: "Þú ert búin að vera með bílpróf síðan 26.febrúar, viltu ekki bara drífa þig að ná í skírteinið" !!!!!!!!

Ég veit eiginlega ekki ennþá hvort ég á að hlæja eða gráta..greyið konan á skiptiborðinu, ég gargaði á hana í símann "ERTAÐ LJÚGA??" og fór svo beint og sótti dýrmætt ferðafrelsi mitt aftur. Ég gekk mas svo langt vera búin að skrifa í dagbókina mína 23 dagar í bílpróf, 14 dagar, 3 dagar osfrv...Misreikningurinn felst líklega í því að ökuníðingar hafa 30 daga til að skila inn skírteini en það er byrjað að telja frá því þeir eru teknir ef ég skil þetta rétt(sem er enn ein skjekkjan í ísl refsilöggjöfinni)

Það sem gerir þetta allt enn súrara er að ég lét plata mig í verkefni á vegum strætó sem fólst í því að telja farþega síðastliðnar 2 vikur og er því búin að hanga í strætó á öllum hugsanlegum tímum sólarhringsins og merkja við alla sem koma inn og fara út. Það var samt ekki nærri því eins hræðilegt og það hljómar því mér finnst svo gaman að skoða fólk og ég fékk alveg nóg að skoða;)


fimmtudagur, mars 01, 2007

Kæri netheimur...

Ég ofanrituð er loksins komin með nettengingu aðeins 7 árum eftir aldamót. Tel ég þetta heilmikið afrek þrátt fyrir að mér hafi augljóslega tekist að gera það á eins ópraktískan máta og hægt er..hmm. Fékk samt fína hjálp í gegnum síma hjá vinalegum gaur að nafni Egill sem sá um þetta allt fyrir mig (og hann er pottþétt á prósentum við að koma út eins mörgum tengingum og hann mögulega getur á hverjum degi).

En ég er líka komin m B.A gráðu í bókmenntafræði og orðin 25 ára, allt í sama mánuðinum jeij:) já og svo hef ég nýlega hafið sambúð með Elvis (geri aðrir betur) sem ég tel að hafi endurholdgast í dökkhærðum, bringuloðnum, rymjandi og sístækkandi leðurblökuketti...
Okkur líður vel saman. Ég gef honum mat og hann þvær mér um hárið á morgnana eða hjálpar til við að þvo fötin mín með því að sjúga þau í hálsmálinu. Hann er líka búinn að endurhanna nokkrar sokkabuxur og leggings með því að búa til falleg göt svo fætur mínir njóti sín betur í þeim.

Það eina sem okkur vantar hér í Bólstaðarhlíð er atvinnutækifæri eða e-r með spádómsgáfu sem getur sagt okkur hvað gerist næst..ég er officially orðin fullorðin hvað gerist núna???