fimmtudagur, júlí 29, 2004

Komin aftur eftir smá hlé...
 
Veit ekki alveg hvað skal segja..
Afi Snorri fékk hvíldina sína síðasta sunnudag og þetta er búin að vera frekar erfið vika... ma & pa komu ekki heim fyrr en í gær þannig að ég og Snorri vorum bara hjá ömmu. Hún er búin að vera alveg eins og hetja í þessu öllu, svo ofboðslega sterk. Kistulagningin var á þriðjudaginn og svo verður jarðaförin á laugardag... skrýtið hvað lífið er fljótt að breytast 

föstudagur, júlí 16, 2004

Voulez vous couchez avec moi, ce soir??
 
Djöfull get ég roðnað og blánað í framan þegar ég geri mig að fíbli!! ég þoli það ekki!!!! Í tilefni þess mun ég skrifa þessa færslu með eldrauðu!!!!
Sökum starfs míns hérna í upplýsingamiðstöðinni þá verð ég stundum að beita gífurlegri tungumálakunnáttu minni og tala þá tungum á meðan ég reyni að útskýra e-ð fyrir þessum blessuðu túristum...hmmmm og lenti í því í dag! ohhhh, það kom fólk sem skildi bara ekkert í ensku..sama hvað ég reyndi (og franska er síðasta úrræði) þannig að ég fór að reyna að tala við þau. Það gekk nú alveg ágætlega nema hvað að það voru fleiri að bíða og hlusta þannig að ég byrjaði svona aðeins að roðna (franskan mín er ekkert voða flott, ég get miklu frekar hlustað og skilið og svarað á ensku) og á endanum var það ekki Gyða sem afgreiddi franska fólkið, heldur eldhnötturinn Rouge sem spúði eldi og brennisteini...og til að toppa það allt saman þá er ég líka í rauðum bol......klakadrottning hvað, ég er svoooo blóðheit í dag ;)
 
Er samt alveg að verða búin að vinna...þá get ég farið heim og skvett framan í mig vatni!!!! það veitir víst ekki af!!!
 
 

þriðjudagur, júlí 13, 2004

Ég gróf upp vísur Vatnsenda Rósu í bókinni Skáld-Rósa, eftir Rósu B. Blöndals og hef þær hér orðrétt eftir...svona fyrir þig Anna mín ;)

Annars er þetta stórmerkileg kona og bók, las allt sem ég fann um hana í fyrra..kostur að vinna hérna á bókasafninu...
eins og svo margar aðrar konur var hún yfirgefin og svikin af manninum sem hún elskaði, hann giftist annarri! Eftir það giftist Rósa sjálf manni sem ég hét Páll og eignaðis m honum fullt af börnum. Hún gat samt aldrei gleymt hinum og orti því þessar vísur til hans...

Augun mín og augun þín,
ó! þá fögru steina.
Mitt er þitt og þitt er mitt,
þú veist hvað ég meina.

Langt er síðan sá ég hann
sannlega fríður var hann.
Allt hvað prýða má einn mann
mest af lýðum bar hann.

Trega ég þig manna mest
mædd af táraflóði.
Ó að við hefðum aldrei sést
elsku vinurinn góði.

Þannig að núna er hægt að æfa sig og syngja þetta án þess að humma helminginn af laginu, hehehehe ;)

mánudagur, júlí 12, 2004

Ótrúlega er allt stundum skemmtilegt :)

Ég er búin að eiga svo góðar stundir undanfarið, veit varla hvar ég á að byrja..
Placebo voru ótrúlegir!! Frábærir tónleikar og mjög gott lagaval hjá þeim, ég er enn að hugsa um Brian Molko á sviðinu í svarta bolnum, grrrrrr...

Svo pakkaði ég í tösku og keyrði norður á Akureyri með henni Soffíu, roadtrip dauðans! gott að við vorum bara einar í bílnum, hvílíkur og annar eins ósómi hefði nú ekki liðist hjá hverjum sem er ;)
Soffía fær 10 rokkprik fyrir að sýna á sér nýjar og villtar hliðar á leiðinni heim, heheheheehe...já og gallarnir eru í vinnslu elskan mín ;)

Á Akureyri hitti ég svo ástkæra Önnu mína sem var búin að skipuleggja heljar útilegu, þar var útileguandinn svo sannarlega við völd!! Ég hitti fullt af nýju og skemmtilegu fólki og er endanlega sannfærð um að vinkona mín sé nú bara í góðum höndum þarna hinumegin á landinu :) ég kynntist m.a. ungri stúlku sem ætlar að halda skilnaðarpartí, a guy who wears a THONG, miklum megasaraðdáanda, manni sem spilar bridds og gengur undir ýmsum dulnefnum og tveimur stelpum sem skutu skjólshúsi yfir íbúa rauða tjaldsins á meðan rigndi í útilegunni :)
Bjórinn okkar framleiddi mikið af súrum húmor sem fékk að njóta sín og upp spratt allskyns vitleysa og bull sem við hlógum OFBOÐSLEGA mikið af!!! Skvísurnar höfðu aðsetur í OG VODAFONE tjaldi (sem ég get mælt með..það er samt erfitt að skipta um föt þar, best að sleppa því bara) og við sungum og sungum og sungum undir öruggu undirspili hins magnaða HEMILS (sem hét ekki Emil, heldur Danni en ekki Gunni eins og sumir héldu,hehehe), en honum tókst á undraverðan hátt að spila næstum allt sem við báðum um...

Ein besta útilega sem ég hef farið í í langan tíma :)
...það var þessvegna svoldið erfitt að keyra aftur heim, fer vonandi bara aftur við fyrsta tækifæri..



miðvikudagur, júlí 07, 2004

Það er komið að því..

Placebo í kvöld og ég er ótrúlega spennt :)
Vona að þeir standist væntingar því ég hef heyrt að Metallica hafi ekki gert það! En það má nú örugglega deila um það eins og allt annað...fúlt samt að kaupa miða á tónleika sem maður er svo ekki ánægður með...

Þó ég hafi samt engan áhuga á Metallica þá væri ég alveg til í að sjá myndina þeirra, vælandi rokkstjörnur af umfjöllun að dæma, hehehehehe Ætli það sé gott eða vont fyrir ímyndina að opna sig svona, hmmmm?

Ég er samt mikið búin að pæla í því sem ég sá í e-u blaði, mynd af Metallica í bláa lóninu og Finnur (sem lék í BLOSSA) að gefa þeim að drekka....fékk hann að vera þarna af því hann er svo töff og með svo mörg tattú, eða starfar hann kannski við það að taka á móti frægu fólki á Íslandi???? Ég hef nebblega oft séð hann áður í tengslum við svona e-ð ...en kannski er það bara þannig að þegar e-r frægur kemur hingað þá er hóað í alla töff fulltrúa íslensku þjóðarinnar sem fá svo að umgangast stjörnunar??


Standardinn fyrir "töff" mætti þá alveg breytast e-ð....

mánudagur, júlí 05, 2004

Rómantík á Flúðum....

Helgin fór eins og mér datt í hug...bæði betra, útilega og verslunarferð :)
Það var rosa gaman líka, eiginlega betra en ég þorði að vona. Reyndar gat ég bara stoppað í rvk í stuttan tíma en ég náði að gera allt sem þurfti að gera..nema hitta fólk; þið hafið mig afsakaða fyrir það :)
Ég, Soffía, Auður og Baldvin brunuðum svo á Flúðir þar sem fullt af fólki var samankomið í útilegu. Fyrst ætlaði ég nú bara að vera edrú og keyra svo heim en það var bara miklu skemmtilegra en ég hélt. Vorum bara útaf fyrir okkur og höfðum gaman þrátt fyrir að vera stödd í mikilli hjónaferð! það voru bókstaflega allir saman þarna nema ég og Soffía!!!! Við létum það nú samt ekki á okkur fá, sátum bara í skottinu á avensisnum hennar Sossu, drukkum bjór og hvítvín og hlógum dátt...jamm og fórum á Útlagann. Ekkert tómatsósupartý samt; en fögur fyrirheit frá manni sem við hittum um að gera okkur frægar, hahahah hahahaha ég sagði honum að Soffía hefði farið í prufu fyrir Nylon :) og að við værum að reyna að fá að spila á þjóðhátíð sem dúettinn Von... og hann ætlaði bara að redda því öllu saman. Var með svo mikil sambönd, Soffía var næstum dáin úr hlátri þegar hann sagði "Já stelpur, þetta er harður bransi en ég get hjálpað ykkur! Frændi minn er nebblega trommarinn í Buttercup!!" (mikil hláturbakföll og fliss)
Svo bara stungum við af út í nóttina og .....

Hef samt sjaldan verið eins þunn og skapvond og í gær..úfffffffff
held ég sé enn að líða fyrir það í dag...en batnandi mönnum er best að lifa og ég er að reyna að hafa hemil á mér hérna í vinnunni..það getur samt verið erfitt stundum :)

Auður, vona að þú hafir slammað mikið á tónleikunum í gær, heheheheheeh

föstudagur, júlí 02, 2004

JÁ ÉG FER Á LOU REED!!!! VÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍ :) HLAKKA SVO TIL!!!!!!!!!!
Skora á ykkur að koma líka, þetta er nú Lou Reed!!!
Gyðjan Gyða betur þekkt sem...

ÞÚ ERT:

APHRODITE

Já svo sannarlega er Afródíta, verndargyðja ástar, fegurðar og kynferðislegs algleymis, þín innri gyðja.

Þó sumir kunni að halda þig grunnhyggna þá býrðu yfir meiri dýpt en augað sér. Og því til viðbótar býrðu yfir krafti og sjálfstjórn til að ráða því hvernig þér líður.

Kerti sem lýsir þinni innri gyðju sem Aphrodite er appelsínugult og hvítt með ilmnum Island Mist






ÞÚ ERT:

ARTEMIS

Artemis er gyðja óbyggðana og villtra dýra, en síðar varð hún einnig gyðja fæðandi kvenna. Hún var skírlíf og bað ung föður sinn guðinn Zeus að veita sér eilífan meydóm.

Hún þótti ægifögur en gat um leið verið afar köld. Hún var ætíð vopnuð boga og örvum var mjög grimm hverjum þeim sem gerði á hlut hennar og þeirra villtu dýra er hún verndaði. Hún naut sín best á hlaupum með dýrunum í skóginum.

Kerti sem lýsir þinni innri gyðju sem Artemis er með aðalit sem grænan og ilminn Avenue

já ég tók kertapróf/gyðjupróf á www.kertaljos.com rosa sniðugt..ég á eftir að kaupa mér fullt af kertum þarna, ég elska kerti og sérstaklega ilmkerti namm!!! Verst að ég kann ekki að setja myndirnar inn líka, þær eru rosa flottar...get semsagt titlað mig sem ástar og veiðigyðju..maybe then I cant hunt down some luuv ;) skrýtið samt að ein sé ástargyðja á meðan hin er skírlíf...þýðir þetta að ég sé tvískiptur persónuleiki!! Það er alltaf svona hjá mér, aldrei hægt að taka ákvörðun heldur er ég alltaf með bæði betra...týpískur fiskur!!!!

Þetta sýnir kannski best hvað það er lítið að gera hjá mér hérna í dag..hmmmmmm Fyrir þá sem ekki vita þá heitir Afródíta Venus í rómversku goðafræðinni, og Artemis heitir Díana þar...því rómverjar stálu næstum öllum bókmenntum Grikkja þegar þeir náðu heimsyfirráðum. Nýtt áhugamál hjá mér: Grísk goðafræði og Van Gogh!!!! Staflarnir á náttborðinu mína hækka stöðugt á meðan gítarkunnáttan minnkar :/
Mamma er samt búin að kenna mér að spila ríðum ríðum, hehehe, ég man ekki hvað það heitir annað:) næsta lag á dagskrá er House of the rising sun (týpískt) og svo kann hún líka e-a Bob Marley slagara (enda er hann uppáhaldið hennar til margra ára!!!!)
Ég ætla aðeins að hvíla það sem ég prentaði út á tab síðunni...það er bara of erfitt að spila það eins og er, en æfingin mun vonandi skapa meistara Gyðu á gítar :)

...annars er nú bara rigning hérna..og útsala í búðinni sem geymir stígvélin sem mig langar í??? spurning að sl útilegunni og kaupa ný fín stígvél! eða kaupa þau og fara svo! eða sjá til því ég get aldrei ákveðið mig!!!!

ég á þó allavega bjór og freyðisápu og bob dylan fyrir kvöldið, aahhh!



































































































































fimmtudagur, júlí 01, 2004

48/51

Það eru hlutföllin sem Michael Moore spáir í bók sinni heimskir hvítir karlar, sem ég er að lesa. Hlutföllin sem hann talar um eru konur og karlar í heiminum, en Moore heldur að konur eigi eftir að ríkja á jörðinni að lokum... útskýrir allavega af hverju allar vinkonur mínar hafa eignast stelpu en ekki strák!!
Annars er þetta ekkert smá fyndin bók, ég skil eiginlega ekkert í því af hverju Bush hefur ekki látið CIA leyniskyttu drepa gaurinn fyrir löngu síðan..það kemur kannski að því..?

En ég sit inni í dag..eins og svo marga aðra daga!! Það er frekar rólegt hérna og mig langar ekkert smá að stinga af og gera e-ð sniðugt!!!!!! Soffía er að reyna að plata mig í útilegu um helgina, veit ekki alveg, ég er líka ein heima og hefði alveg viljað slappa af og drekka pínu bjór og sauma og hafa plötukynningu og fara í bað og liggja í grasinu og og.. en það má svo sem gera þetta næstum allt í útilegu :) Held stelpurnar séu að spá í Flúðir..hmmm, er gaman þar??